Bjór ársins á Hólum 2016

Togarinn Imperial Stout

Bjór ársins á Bjórhátíð Íslands á Hólum 2016
Það var á fundi hjá Kiwanisklúbbnum Helgafelli að þeir sátu á spjalli yfir bjór Jóhann yfirbruggari The Brothers Brewery og sjómaðurinn Ragnar Þór Jóhannsson eða Raggi Togari eins og hann er alltaf kallaður. Í spjallinu á milli þeirra fór Raggi að kvarta yfir því  að ekki væri búið að nefna bjór í höfuðið á honum, Jóhann greip þetta strax á lofti á fór á flug með þá hugmynd að gera sérstakan bjór fyrir sjómannadaginn og yrði hann kallaður Togarinn.

 


Ljúfur en sterkur í anda Ragga Togara
Í viðtali við Sjómannadagsblaðið í Vestmannaeyjum 2016 segja Jóhann og Ragnar m.a. ",,Við ákváðum að brugga imperial stout og reyna að hafa bjórinn eins dökkann og hægt væri og hafa hann soldið grófann og sterkan þannig að það væri Ragga stæll á þessu. Ég hafði bruggað Imperial stout bjór áður og fór eftir þeirri uppskrift en ákvað að poppa hann aðeins upp og gera hann sterkari, en Togarinn er rúm 10%. Á meðan bjórinn var að gerjast, tók ég eikarspírala og setti þá út í viskí og þar lágu þeir í rúmar tvær vikur. Settum þá svo út í bjórinn. Þannig að maður finnur vel fyrir viskítónum í bjórnum. “ Raggi bætti því við að þetta ætti að vera þannig bjór, að um sjómannadaghelgina þurfi maður bara einn til þess að rétta sig við. ,,Þetta er mjög þroskaður bjór eins og nafni hans” segir Raggi og hlær 

Mætti eins og alvöru sjóari á leigubíl
Ragnar Þór tók að sjálfsögðu virkan þátt í bruggferlinu á nafna sínum, enda mikill áhugamaður um góðan bjór og gott vín og fannst því nauðsynlegt að fylgjast vel með ferlinu. ,,Við byrjuðum að brugga bjórinn á snemma á laugardagsmorgun. Ég vaknaði um morgunin aðeins ryðgaður eftir smá föstudagsfjör, skellti mér í föt og upp í Höll þar sem að strákarnir eru með aðstöðu. Ég mætti að sjálfsögðu eins og alvöru sjóari, í leigubíl. Enda vissi ég vel að ég yrði ekki ökuhæfur eftir daginn. Þetta var alveg ferlega gaman og ég er spenntur að sjá hvernig viðtökurnar verða. Það er skemmtilegt að þessi hugmynd sem var nú meira sögð í gríni en í alvöru, sé orðin að veruleika."

Bjór ársins á Bjórhátíðinni á Hólum 2016
Togarinn var framleiddur í takmörkuðu upplagi eða í heildina voru einungis bruggaðir 30 lítrar. Ákveðið var að setja níu lítra til sölu á veitingastaðinn Einsa Kalda um sjómannadagshelgina, Togarinn var einnig settur á tólf númeraðar 0.75l flöskur og fór tvær af þeim m.a. á uppboð til góðgerðarmála og restin fór á Bjórhátíð Íslands á Hólum 2016.
Bjórhátíðin á Hólum er mögnuð hátíð og þangað fórum við í The Brothers Brewery í fyrsta skiptið árið 2016. Þangað mæta flestir íslenskir bjórframleiðendur til að kynna vörur sínar og gestir hátíðarinnar sem eru í kringum 200 kjósa svo í lok dags besta bjór hátíðarinnar. Árið 2016 voru yfir þrjátíu tegundir í boði frá íslenskum framleiðendum og var það Togarinn sem fékk 1.verðlaun fyrir besta bjórinn á Bjórhátíðinni á Hólum 2016.  

Dýrasti bjór Íslands!
Ein flaska af Togaranum fór í uppboð til góðgerðarmála á hátíðarkvöldi sjómanna á sjómannadagshelginni í Vestmannaeyjum. The Brothers Brewery gaf ásamt Ragga Togara eina flösku til sjómannadagsráðs í eyjum til bjóða upp og ákveðið var að ágóðinn skyldi renna til Krabbavarna í Vestmannaeyjum. Krabbavörn hefur það hlutverk að styðja við þá einstaklinga sem greinast með krabbamein í Vestmannaeyjum og aðstandendur þeirra. Uppboðið á sjómannaballinu gekk vonum framar og var hæsta boð í flöskuna 300.000 krónur sem gerði Togarann að dýrasta bjór Íslands.

 


The Brothers Brewery ánægðir með lífið og tilveruna á Bjórhátíðinni á Hólum